Innlent

Á­fram í fangelsi þótt gæslu­varð­halds­kröfu hafi verið hafnað

Kjartan Kjartansson skrifar
Mennirnir voru að vinnu við sumarbústað í Kiðjabergi þegar einn þeirra lést 20. apríl. Tveir hafa sætt gæsluvarðhaldi grunaðir um að valda dauða hans.
Mennirnir voru að vinnu við sumarbústað í Kiðjabergi þegar einn þeirra lést 20. apríl. Tveir hafa sætt gæsluvarðhaldi grunaðir um að valda dauða hans. Vísir/Vilhelm

Litháenskur karlmaður sem er grunaður um að hafa valdið dauða samlanda síns í sumarhúsabyggð í Kiðjabergi í apríl verður áfram í haldi þrátt fyrir að dómari hafi hafnað gæsluvarðhaldskröfu lögreglu. Maðurinn afplánar nú eldri fangelsisdóm.

Gæsluvarðhald tveggja Litháa vegna manndrápsins sem þeir hafa sætt frá 20. apríl rann út síðdegis í dag. Lögregla krafðist áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir öðrum þeirra en farbanns yfir hinum. Héraðsdómur Suðurlands hafnaði gæsluvarðhaldskröfunni en féllst á farbannið.

Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að úrskurðurinn hafi verið kærður til Landsréttar og að hann verði vonandi tekinn fyrir sem fyrst.

Maðurinn sem lögreglan vildi fá áfram í gæsluvarðhald verður áfram í fangelsi þar sem hann hefur nú afplánun á útistandandi dómi í eldra máli. Jón Gunnar sagðist ekki þekkja nægilega til þess máls til þess að geta tjáð sig um það.

Rannsókn á dauða mannsins heldur áfram og miðar vel, að sögn Jóns Gunnars.

Tveir aðrir litháenskir karlmenn sættu gæsluvarðhaldi í fyrstu en var sleppt eftir tveggja daga vist.


Tengdar fréttir

Óska eftir frekara gæsluvarðhaldi

Óskað verður eftir frekara gæsluvarðhadli yfir tveimur karlmönnum sem eru grunaðir um manndráp í sumarhúsi í Kiðjabergi þann 20. mars síðastliðinn.

Rannsókn vegna meints manndráps í Kiðjabergi miðar vel

Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi vegna meints manndráps í sumarhúsi í Kiðjabregi 20. apríl miðar vel að sögn yfirlögregluþjóns. Gæsluvarðhald yfir tveimur litháískum karlmönnum rennur út á morgun og verður tekin ákvörðun síðar í dag hvort farið verði fram á að það verði framlengt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×