Innlent

Jón sendir val­greiðslu­kröfur í heima­banka stuðnings­manna sinna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jón ásamt Heiðu Kristínu Helgadóttur fyrir kappræður forsetaefnanna á Stöð 2.
Jón ásamt Heiðu Kristínu Helgadóttur fyrir kappræður forsetaefnanna á Stöð 2. Vísir/Vilhelm

Forsetaframboð Jóns Gnarr hefur sent út valgreiðslukröfur í heimabanka stuðningsmanna en um er að ræða reikninga sem fólk getur valið að greiða eða greiða ekki.

Jón Greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni, þar sem hann segir gríðarlega kostnaðarsamt að bjóða sig fram til forseta og hann sé þakklátur fyrir allan stuðning.

„Ef þú hefur fengið valkröfu og ert aflögufær, þá þætti mér afar vænt um það. Ef þú getur ekki styrkt mig þá skil ég það líka og bið þig að gleyma þessum seðli,“ segir Jón.

Þá biðst hann afsökunar ef valgreiðslukrafan hefur valdið fólki hugarangri eða óþægindum.

Ekki liggur fyrir eins og er hversu miklum fjárhæðum forsetaframbjóðendur hafa varið til kosningabaráttunnar en á heimasíðu Meta, eiganda Facebook, má finna upplýsingar um hversu miklu þeir hafa varið til auglýsinga á miðlinum.

Þar ber Ástþór Magnússon höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur en hann hefur samkvæmt samantekt Meta varið yfir 9 milljónum í auglýsingar, þar af milljón í síðustu viku. 

Halla Hrund Logadóttir hefur keypt auglýsingar af Facebook fyrir um 450 þúsund krónur og Halla Tómasdóttir og Baldur Þórhallson fyrir yfir 300 þúsund krónur.

Katrín Jakobsdóttir hefur greitt um það bil 40 þúsund krónur fyrir auglýsingar á miðlinum og Jón Gnarr fyrir um 55 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×