Erlent

Ísraelar kalla sendi­herrana heim frá Noregi, Ír­landi og Spáni

Atli Ísleifsson skrifar
Israel Katz er utanríkisráðherra Ísraels. Hann segir Ísraela ekki munu bregðast við tíðindum morgunsins þegjandi og hljóðalaust.
Israel Katz er utanríkisráðherra Ísraels. Hann segir Ísraela ekki munu bregðast við tíðindum morgunsins þegjandi og hljóðalaust. EPA

Utanríkisráðherra Ísraels hefur ákveðið að kalla ísraelska diplómata í Noregi, Spáni og Írlandi heim til skrafs og ráðagerða eftir að stjórnvöld þar tilkynntu í morgun að þau viðurkenndu sjálfstætt ríki Palestínu. 

AFP greinir frá þessu. Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og utanríkisráðherrann Espen Barth Eide tilkynntu á fréttamannafundi sínum í morgun að Noregur muni formlega viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki frá 28. maí. Sagði Støre þetta nauðsynlegt skref til að hægt sé að skapa frið í heimshlutanum og að svokölluð tveggja ríkja lausn væri besta leiðin til að ná fram friði.

Simon Harris, forsætisráðherra Írlands, og Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, greindu sömuleiðis frá því í morgun að Írlandi og Spánn muni bæði viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu frá 28. maí. 

Friður, réttlæti og stöðugleiki

Sanchez tilkynnti um ákvörðunina í ræðu á spænska þinginu í morgun. Hann sagði ýmsar ástæður liggja að baki henni en að hægt væri að taka hana saman í þremur orðum - friður, réttlæti og stöðugleiki. „Við verðum að tryggja að tveggja ríkja lausn sé virt og það verða að koma til gagnkvæm öryggisábyrgð. Það er nauðsynlegt að aðilarnir tveir ræði saman um frið og af þeirri ástæðu viðurkennum við Palestínu,“ sagði Sanchez. Hann segir ákvörðunina ekki vera til stuðnings Hamas, heldur í friði og friðsamlegri sambúð.

Harris sagðist í ræðu sinni sannfærður um að fleiri ríki komi til með að fylgja Írum, Norðmönnum og Spánverjum að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu. Hann sagði ennfrefur að íbúar á Gasa þurfi nú að þola miklar þjáningar, harðræði og hungur.

Skilaboð um að hryðjuverk borgi sig

Eftir að tíðindin bárust í morgun sagðist Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, senda Írum og Norðmönnum skýr skilaboð. „Ísrael mun ekki bregðast við þessu þegjandi og hljóðalaust. Ég hef nú beðið ísraelsku sendiherrana í Noregi og Írlandi um að að koma heim til skrafs og ráðagerða,“ segir Katz. 

Þá segir hann ákvörðunina um að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu senda Palestínumönnum skýr skilaboð um að hryðjuverk borgi sig.

Í heildina hafa nú um 145 af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki. Ísland viðurkenndi sjálfstætt ríki Palestínu árið 2011 þar sem Palestína er viðurkennt sem fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×