Íslenski boltinn

„Þurftum bara að skerpa á nokkrum hlutum“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Haukur Páll Sigurðsson fyrrum leikmaður og núverandi aðstoðarþjálfari Vals í knattspyrnu.
Haukur Páll Sigurðsson fyrrum leikmaður og núverandi aðstoðarþjálfari Vals í knattspyrnu. Vísir/Hulda Margrét

Haukur Páll Sigurðsson stýrði liði Vals í kvöld gegn HK í Bestu deild karla í fótbolta þar sem Arnar Grétarsson tekur út leikbann. Unnu Valsmenn leikinn 1-2 í fjarveru Gylfa Þórs Sigurðssonar.

„Ánægður að sækja þrjú stig, það eru svona fyrstu viðbrögð eftir þennan leik,“ sagði Haukur Páll beint eftir leik.

Valsliðið virtist eiga gír inni eftir fyrri hálfleikinn og var greinilegt að liðið þyrfti að spila betur í seinni hálfleik. Valsmenn komu af krafti inn í seinni hálfleikinn, en þeir gerðu tvær breytingar á sínu liði í hálfleik og breyttu leikskipulaginu í 4-3-3.

„Mér fannst við bara þurfa að skerpa aðeins á. Þeir voru mikið í löngum boltum og voru svolítið að vinna seinni boltanna. Við þurftum bara að skerpa á nokkrum hlutum og mér fannst við gera það þokkalega í seinni hálfleik og svona heilt yfir sanngjarnt held ég,“ sagði Haukur um síðari hálfleikinn.

HK jafnaði leikinn með algjöru sprellimarki, en hreinsun Frederik Schram fór beint í ennið á Arnþóri Ara Atlasyni sem stóð tæpum 30 metrum frá marki og þaðan skoppaði boltinn í netið. Hauk Pál fannst sitt lið ekki slegið út af laginu eftir þetta mark.

„Það eru mistök í fótbolta og allt svoleiðis og þeir skora frekar ódýrt mark, það er bara hluti af þessu. Mér fannst við ekki slegnir út af laginu. Mér fannst við ekki detta á hælana eða neitt svoleiðis, við héldum bara áfram og vorum staðráðnir í því að ná inn seinna markinu.“

Að lokum var Haukur Páll spurður út í stöðuna á Gylfa Þór Sigurðssyni, sem var ekki í leikmannahópi Vals í kvöld vegna meiðsla.

„Auðvitað hefur maður áhyggjur þegar einhver er meiddur, hvort sem það er hann eða einhver annar leikmaður. Þetta eru smá bakmeiðsli og það verður bara að koma í ljós hvenær hann verður klár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×