Innlent

Tekinn með tólf kíló af hassi í far­angrinum

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn hafði samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.
Maðurinn hafði samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu. Getty

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í þrettán mánaða fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla rúmum tólf kílóum af hassi til landsins með flugi í maí síðastliðinn.

Maðurinn var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnabrot en hann flutti efnin til landsins í farangurstösku sinni þegar hann kom til landsins með flugi frá Milanó á Ítalíu.

Maðurinn játaði afdráttarlaust sök í málinu, en hann hefur ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé. Í dómi segir að maðurinn hafi ekki verið eigandi efnanna, heldur samþykkt að flytja þau til landsins gegn greiðslu.

Var hæfileg refsing ákveðin þrettán mánaða fangelsi, en rétt að fresta fullnustu tíu mánaða þeirrar refsingar og að sá hluti yrði látinn niður falla, haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða rúma milljón króna í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×