Innlent

Skelfi­legt að þurfa grípa til hópuppsagna

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Um 150 starfsmönnum Grindavíkurbæjar verður sagt upp til að bregðast við gjörbreyttum aðstæðum.
Um 150 starfsmönnum Grindavíkurbæjar verður sagt upp til að bregðast við gjörbreyttum aðstæðum. Vísir/Arnar

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur segir að skelfilegt sé að þurfa að grípa til hópuppsagna. Bæjarstjórn Grindavíkur ákvað á fundi í morgun að fækka störfum hjá sveitarfélaginu. Starfsmönnum fækkar um allt að 150. Hann vonar að „þetta ömurlega tímabil“ taki enda fyrr en síðar.

„Þetta eru allskonar störf, og þetta eru náttúrulega bara störf þar sem að ekki er hægt að sinna verkefnunum, vegna þess að aðstæður í bænum eru þannig að fólk býr ekki þar nema að mjög litlu leyti. Þetta er þvert á stofnanir og rekstur sveitarfélagsins. Það er margt undir, því miður,“ segir Fannar.

Hann segir að heildarfjöldi starfsmanna sveitarfélagsins hafi verið um 300 í nóvember áður en þessir miklu atburðir hófust. Einhver þeirra hafi þegar sagt upp og fundið starf annars staðar. „En við gerum ráð fyrir því að eftir að þetta er gengið um garð, að þá geti orðið svona allt að 100 manns eftir í vinnu hjá bænum,“ Fannar.

Hann segir að Grindvíkingar horfi björtum augum til framtíðarinnar, þau ætli að byggja bæinn upp að nýju og gera hann að því blómlega og öfluga sveitarfélagi sem það hefur verið. Það geti þó tekið langan tíma og óvissan sé mikil. Ekki sé hægt að hefjast handa við endurreisn bæjarins eins og sakir standi. „En við vonum að þetta ömurlega tímabil sem að hefur nú verið að leika okkur svo grátt, að það taki nú enda fyrr en síðar og við getum farið að snúa vörn í sókn,“ segir Fannar. Hann segir að þetta sé skelfilegur dagur og ömurlegt sé að þurfa horfa á þetta frábæra starfsfólk bæjarins fá uppsagnir, þó að margir hafi nú séð í hvað stefndi.

Hann segir að þrátt fyrir samkomulag milli samkomulags milli bæjarins og innviðaráðuneytisins um að ráðuneytið muni styrkja Grindavík til ýmissa verka, þurfi Grindavík þó að sýna aðhald í rekstri og minnka launakostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×