Viðskipti innlent

Snýr aftur til Snjall­gagna

Atli Ísleifsson skrifar
Óli Páll Geirsson kemur til fyrirtækisins frá Lucinity þar sem hann starfaði síðast.
Óli Páll Geirsson kemur til fyrirtækisins frá Lucinity þar sem hann starfaði síðast. Aðsend

Óli Páll Geirsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri gagnavísindateymis Snjallgagna og snýr jafnframt samhliða aftur í eigendateymið.

Greint er frá þessu í tilkynningu, en Óli Páll var einn af stofnendum félagsins árið 2020. Óli Páll leiddi síðast gagnavísindateymi Lucinity, sem hafði það hlutverk að þróa gervigreindarlíkön og aðferðir sem auðvelda fjármálafyrirtækjum til að taka gagnadrifnar og árangursríkar ákvarðanir í baráttunni gegn peningaþvætti.

„Hann starfaði áður sem gagnastjóri Reykjavíkurborgar á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Þar byggði hann upp og leiddi skrifstofu gagnaþjónustu til að styðja við gagnadrifna ákvarðanatöku innan borgarinnar og skapa virði úr gögnum hennar. Hann sat einnig í framkvæmdastjórn sviðsins og í aðgerðastjórn stafrænna umbreytinga hjá borginni. Þar áður var Óli Páll sérfræðingur í gagnavísindum hjá Landsbankanum. Hann er með doktorsgráðu í tölfræði frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í stærðfræði frá sama skóla. Samhliða fyrri störfum hefur Óli Páll starfað sem aðjúnkt í tölfræði við Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Tíu manns starfa hjá Snjallgögnum sem þróa hugbúnaðarlausnir sem ætlað er að gera fyrirtækjum mögulegt að hagnýta gervigreind og gagnavísindi til að efla sölu og þjónustu ásamt því að bæta daglegan rekstur. Lykilvara fyrirtækisins er gervigreindarkerfið Context Suite, en fyrirtækið hefur allt frá stofnun unnið að margvíslegum gervigreindarlausnum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×