Íslenski boltinn

Lýkur Gylfi marka­þurrð Vals á Kópa­vogs­velli?

Sindri Sverrisson skrifar
Valsmenn hafa gert öll þrjú mörk sín til þessa á heimavelli en tókst ekki að skora í Garðabæ og Árbæ.
Valsmenn hafa gert öll þrjú mörk sín til þessa á heimavelli en tókst ekki að skora í Garðabæ og Árbæ. vísir/Diego

Valsmönnum hefur gengið illa að skora á Kópavogsvelli síðustu ár og þurfa að bæta úr því í kvöld þegar þeir mæta Blikum, eftir slæma byrjun á leiktíðinni í Bestu deild karla í fótbolta.

Valsmenn eru aðeins með fimm stig eftir fjóra leiki, og hafa skorað fæst mörk allra liða í deildinni eða þrjú.

Það eru því ekki góðar fréttir að liðið þurfi að bæta úr markaleysinu á Kópavogsvelli, því þar hefur Valur ekki skorað mark í síðustu þremur heimsóknum í Bestu deildinni. Þessu ætla gestirnir að breyta í kvöld en leiksins er beðið með mikilli eftirvæntingu og ljóst að færri komast að en vilja.

Breiðablik hélt marki sínu hreinu í aðeins tveimur heimaleikjum í Bestu deildinni í fyrra en annar þeirra var 1-0 sigurinn gegn Val fyrir ári síðan, þar sem Stefán Ingi Sigurðarson gerði sigurmarkið snemma í seinni hálfleik.

Árið 2022 var það Ísak Snær Þorvaldsson sem skoraði eina markið í sigri Blika, og árið 2021 vann Breiðablik 3-0 sigur þar sem Árni Vilhjálmsson skoraði tvö mörk og Kristinn Steindórsson eitt.

Blikar haldið hreinu heima í sumar

Í þessum leikjum var Valur vissulega ekki með Gylfa Þór Sigurðsson í sínum röðum, eða Jónatan Inga Jónsson. Þeir hafa þó ekki verið heitir uppi við mark andstæðinganna en Gylfi skorað eitt mark. Hin tvö deildarmörk Vals hafa komið frá Patrick Pedersen.

Það eru heldur ekki góðar fréttir fyrir Val að Breiðablik hefur haldið markinu hreinu í báðum heimaleikjum sínum í sumar, og þannig nú þegar jafnað þann árangur sinn frá því í fyrra, en liðið vann FH 2-0 í fyrsta heimaleik og svo Vestra 4-0.

Leikur Breiðabliks og Vals hefst klukkan 19:15 og bein útsending á Stöð 2 Sport hefst korteri fyrr. Leikurinn verður svo gerður upp ásamt öðrum leikjum 5. umferðar í Stúkunni fljótlega eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×