Erlent

Xi og Macron ræða kín­verska raf­bíla og franskt koníak

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Blaðamenn boðuðu til mótmæla vegna heimsóknar Xi, þar sem þeir vöktu meðal annars athygli á fangelsun kollega þeirra í Kína.
Blaðamenn boðuðu til mótmæla vegna heimsóknar Xi, þar sem þeir vöktu meðal annars athygli á fangelsun kollega þeirra í Kína. AP/Christophe Ena

Xi Jinping, forseti Kína, kom í morgun í opinbera heimsókn til Parísar í Frakklandi þar sem hann mun hitta kollega sinn Emmanuel Macron. Þetta er fyrsta heimsókn Xi til Evrópu frá árinu 2019 en hann mun einnig heimsækja Serbíu og Ungverjaland.

Xi sagði við komuna til Frakklands að viðskiptasaga Frakka og Kínverja hefði verið farsæl og góð fyrirmynd fyrir alþjóðasamfélagið. Þó eru blikur á lofti því harðar deilur hafa verið á milli landanna tveggja í tengslum við innflutning á rafbílum til Frakklands og koníaki til Kína. 

Evrópusambandið hefur hafið athugun á því hvort leggja eigi aukin gjöld á rafbíla frá Kína, sem eru töluvert ódýrari en evrópskir rafbílar vegna niðurgreiðslu kínverskra stjórnvalda. 

Macron er sagður munu reyna að fá Xi ofan af því að grípa til hefndaraðgerða vegna athugunarinnar, til að mynda með auknum álögum á franskt koníak og landbúnaðarvörur.

Xi mun einnig funda með Úrsulu von der Leyen sem ætlar að ræða við hann um viðskipti við Evrópusambandið en einnig að reyna að fá hann til að hafa áhrif á Vladimír Pútín Rússlandsforseta og stríðsrekstur hans í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×