Fótbolti

Þjálfari Orra Steins sáttur: Hann hefur haldið kjafti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neestrup var og er mjög sáttur með Orra Stein.
Neestrup var og er mjög sáttur með Orra Stein. Vísir/Getty Images

Jacob Neestrup, þjálfari Danmerkurmeistara FC Kaupmannahafnar, var eðlilega sáttur með frammistöðu Orra Steins Óskarssonar í gær þegar FCK lagði AGF 3-2 þökk sé þrennu frá Orra.

Þá er Neestrup sáttur með að Orri Steinn hafi látið verkin tala innan vallar frekar en utan en þessi 19 ára gamli framherji hefur mátt þola bekkjarsetu undanfarið þó liðinu hafi sárlega skort mörk.

„Ég vil bara hrósa Orra því ég hef undanfarið horft frekar til (Andreas) Cornelius af því ég tel hann hafa geta gefið okkur aðra möguleika, sérstaklega í Herning gegn Midtjylland.“

„Ég tel okkur hafa notað Orra vel nokkrum sinnum og ekki jafn vel í önnur skipti. Orri hefur samt alltaf verið klár. Hann hefur æft vel, haldið kjafti og einbeitt sér að sér sjálfum.“

„Eins og ég sagði við hann inn í búningsklefa, dugnaður og gæði á æfingum skila sér alltaf,“ sagði Neestrup að endingu.

Hinn 19 ára gamli Orri Steinn hefur nú skorað 12 mörk og gefið 6 stoðsendingar í öllum keppnum á leiktíðinni. Þar á meðal er þrenna gegn Breiðabliki sem faðir hans Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfaði þá og svo þrenna nú gegn AGF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×