Upp­gjör og við­töl: Njarð­vík - Þór Þ. 107-110 | Þórsarar sigri frá undan­úr­slitum

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Þór gerði sér lítið fyrir og vann í Ljónagryfjunni.
Þór gerði sér lítið fyrir og vann í Ljónagryfjunni. Vísir/Bára Dröfn

Þór Þorlákshöfn er komið 2-1 yfir í einvígi sínu við Njarðvík í 8-liða úrslitum Subway-deildar karla í körfubolta eftir magnaðan sigur í framlengdum leik í Ljónagryfjunni. 

Leikurinn í kvöld byrjaði stórkostlega þar sem liðin byrjuðu á því að skiptast á að vera með forystu áður en Þór Þorlákshöfn tóku svolítið völdin og leiddu sannfærandi og sanngjarnt eftir fyrsta leikhluta 24-31. Gestirnir voru að setja stóru skotin á meðan Njarðvíkingar voru svolítið að fara erfiðari leiðina.

Annar leikhluti var hreint stórkostleg skemmtun. Eitthvað hefur Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur sagt við sína menn fyrir leikhlutann því þeir mættu á eldi út í annan leikhluta. Þeir voru búnir að jafna leikinn á rúmum þrem mínútum inn í leikhlutann þar sem Chaz Williams leiddi sóknarleik liðsins.

Heimamenn snéru leiknum algjörlega sér í vil og fóru með níu stiga forskot inn í hálfleikinn 62-53. Njarðvík skoraði 38 stig í öðrum leikhluta og áttu gestirnir enginn svör við frábærum sóknarleik heimamanna.

Það var ekki alveg sami kraftur í heimamönnum út úr hálfleiknum. Það voru gestirnir sem mættu kraftmeiri út í seinni hálfleikinn og unnu sig vel inn í leikinn aftur með mikilli baráttu og elju. Eftir þriðja leikhluta leiddu gestirnir með fjórum stigum 79-83.

Njarðvíkingar náðu kröftum sínum aftur í fjórða leikhluta en Þórsliðið var langt því frá að ætla að gefa þeim eitthvað eftir. Það var mikið jafnræði með liðunum og allt í járnum fram að síðustu sekúndu venjulegs leiktíma en Dominykas Milka jafnaði leikinn fyrir Njarðvík þegar 00.8sek voru á klukkunni 100-100 og við fórum í framlengingu.

Í framlengingunni voru það gestirnir í Þór Þorlákshöfn sem höfðu yfirhöndina og náðu að knýja fram sterkan sigur á erfiðum útivelli 107-110.

Atvik leiksins

Í leik þar sem allt var í járnum er erfitt að taka eitthvað eitt móment út fyrir sviga. Njarðvík eru með boltann þegar rétt um 30 sek eru eftir á klukkunni og eru einu stigi undir en missa hann klaufalega og þurfa að brjóta sem sendi Tómas Val á vítalínuna. Tómas Valur setti bæði vítin og gerði verkefnið erfiðara fyrir Njarðvík sem náði ekki að setja þrist til að jafna leikinn.

Stjörnur og skúrkar

Hjá heimamönnum var Dominykas Milka með trölla tvennu. 29 stig og 20 fraköst. Chaz Williams var sömuleiðis einu frákasti frá þrefaldri tvennu. Hann var með 23 stig, 12 stoðsendingar og 9 fráköst.

Darwin Davis var frábær í liði gestana. Skoraði af vild og var með 30 stig og reif auk þess niður átta fráköst. Jordan Semple var líka drjúgur í liði Þórs áður en hann fékk sína fimmtu villu.

Skúrarnir voru kannski Mario Matasovic í liði Njarðvíkur. Hann lenti snemma í villu vandræðum og tók miklu minni þátt í leiknum en Njarðvíkingar gerðu kannski ráð fyrir. Dwayne Lautier-Ogunleye hefur verið frábær í liði Njarðvíkur var heldur hljóðlátur í kvöld. Hann á klárlega meira inni.

Dómarinn

Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson og Eggert Þór Aðalsteinsson sáu um dómgæsluna í Ljónagryfjunni hér í kvöld. Það voru margir dómar sem manni fannst furðulegir. Áttu líka marga dóma sem þeir negldu. Fóru í VAR skjáinn á einum tímapunkti þegar Njarðvíkingar gerðu tilkall til að láta henda Jordan Semple úr húsi eftir að hann og Dwayne Lautier-Ogunleye lentu í einhverju klafsi. Heilt yfir þá myndi maður segja að þeir hefði náð prófinu ef maður ætti að líkja þessu við próf. Stemmingin og umgjörð

Það var vel mætt í Ljónagryfjuna í kvöld og ánægjulegt að sjá hversu snemma á ferðinni margir voru. Það er greinilegt að það á ekki að missa af neinu hjá hvoru liði sem er einstaklega ánægjulegt að sjá.

Umgjörðin var eins og ávallt í Njarðvík. Það er kannski þröngt á þingi hérna en það er einstaklega vel hugsað um mann. Kosturinn við þrengslin eru líka þau að maður er alveg ofan í stuðinu á vellinum.

„Verð illa svekktur ef við mætum ekki dýrvitlausir í þennan leik“

Benedikt Guðmundsson er illur á svip í leikhléi Njarðvíkur vísir / pawel

„Þetta var alveg virkilega súrt og svíður mjög,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur svekktur eftir leikinn í kvöld.

Njarðvíkingar eru búnir að „missa“ heimavallar réttinn í einvíginu en þeir þurfa núna að sækja hann aftur á útivelli í næsta leik.

„Við erum búnir að missa hann en það er hægt að ná í hann aftur. Það er bara verkefni mánudagsins að ná í hann aftur.“

Benedikt sagði að það væri hægt að telja upp slatta þegar hann var spurður út í það hvað hafi farið með leikinn í kvöld.

„Það er ýmislegt, þú getur tínt til slatta. Við byrjum leikinn illa, lendum 9-10 undir alveg eins og í Þorlákshöfn í síðasta leik. Náum að vinna muninn upp og grafa okkur upp úr holunni, komnir yfir í hálfleik. Byrjum þriðja leikhluta líka illa aftur eins og í Þorlákshöfn um daginn og það finnst mér ekki vera ásættanlegt. Byrjunarliðið verður að taka meiri ábyrgð og byrja þessa hálfleika. Byrja leiki sterkt eins og við gerðum í leik eitt þar sem við náðum bara stjórn á leiknum strax í byrjun.“

„Varnarlega þá þurfum við að gera miklu betur en mínum mönnum til varnar þá er Tómas 4/4 í þriggja, Jordan Semple er 3/3 í þriggja. Það er það allra mesta sem þeir hafa skorað fyrir utan þriggja stiga línuna þannig það var margt að ganga upp með Þórsurum. Í síðasta leik var það einhver ævintýraleg karfa og þetta snýst um að blómstra á stóra sviðinu í úrslitakeppninni og þessir strákar eru að gera það hjá þeim.“

Mario Matasovic lenti snemma í villu vandræðum í liði Njarðvíkur og tók því minni þátt í leiknum heldur en Njarðvíkingar vonuðust eflaust eftir. Benedikt er þó ánægður að hafa þó allavega Mario í úrslitakeppninni.

„Ég er ánægður að hafa Mario bara hérna yfir höfuð. Þetta tímabil átti að vera búið hjá honum útaf meiðslum sem að hann varð fyrir. Það var búið að segja okkur að hann yrði ekkert meira með. Ef að læknar segja fjórir mánuðir þá er Mario kominn eftir tvo mánuði. Hann er hérna með okkur og hann er kannski ekki búin að ná fyrri styrk eins og við þekkjum Mario en það er mjög gott að hafa hann. Ef hann fer útaf þá verða bara aðrir að stíga upp.“

Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkinga býst við hörku leik á mánudaginn í leik fjögur á milli þessara liða og vonast til að sjá sem flesta Njarðvíkinga í stúkunni.

„Njarðvíkurliðið þarf klárlega að selja sig dýrt á mánudaginn annars er það bara sumarfrí. Ég verð illa svekktur ef við mætum ekki dýrvitlausir í þennan leik.“

„Við þurfum á því að halda [stuðning úr stúkunni]. Núna erum við með bakið upp við vegg og það er enginn tilbúin til þess að fara í sumarfrí stax. Núna þurfum við alla í bátana.“

„Held ég gæti spilað endalaust þetta var svo skemmtilegt“

Tómas Valur er einn af lykilmönnum Þórs.Vísir/Bára Dröfn

Njarðvík tóku á móti Þór Þorlákshöfn í þriðja leik liðana í 8-liða úrslitum í Subway deild karla í kvöld. Liðin voru jöfn með sitthvorn sigurinn fyrir leikinn í Ljónagryfjunni í kvöld en Þór Þorlákshöfn tóku forystu í einvíginu með 107-110 sigri hér í Ljónagryfjunni í kvöld.

„Það var mikil spenna og mikið spennufall núna. Þetta var geggjaður leikur og ég held að ég gæti spilað endalaust þetta var svo skemmtilegt.“ Sagði Tómas Valur Þrastarson leikmaður Þórs Þ. að vonum ánægður eftir leik í kvöld.

Tómas Valur setti mikilvæg stig í leik tvö á móti Njarðvík og hann var aftur á ferðinni í kvöld með mikilvæg stig fyrir gestina en hann var ískaldur á vítalínunni þegar örfáar sekúndur voru eftir og setti tvö víti sem kom Þór Þ. í þriggja stiga mun.

„Ég reyni bara að gera mitt besta og hjálpa liðinu hvort sem það er í sókn eða vörn.“

Þór Þ. eru búnir að snúa einvíginu sér í vil og geta með sigri á mánudaginn tryggt sig inn í undanúrslitin á heimavelli.

„Það er rosalega mikilvægt. Við ætlum að reyna að klára þetta núna næst og það fyrir framan áhorfendurnar heima sem er bara geggjað.“

Þór Þ. voru níu stigum undir í hálfleik en Tómas Valur sagði að Lárus hafi þó ekki eytt miklum orðum í hálfleik.

„Hann sagði ekki rosa mikið. Hann sagði bara að við þyrftum að vera meira ‘physical’ og meira orkustig. Þá kom þetta og við spiluðum miklu betri vörn og stálum boltum og hlupum í bakið á þeim. “

Það voru margir stuðningsmenn Þórs Þ. sem lögðu leið sína á völlin í kvöld og má færa góð rök fyrir því að þeir hefðu yfirtekið stúkuna.

„Mér fannst það geggjað. Það er geggjað að spila fyrir framan þá [stuðningsmennina] og þeir svona lyfta manni upp á annað level.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira