Sport

Týndi Super Bowl hringnum sínum: Grín sem endaði ekki vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Kelce setti skóna upp á hillu á dögunum og vinnur því ekki fleiri Super Bowl hringa sem leikmaður.
Jason Kelce setti skóna upp á hillu á dögunum og vinnur því ekki fleiri Super Bowl hringa sem leikmaður. Getty/Tim Nwachukwu

Ameríski fótboltamaðurinn Jason Kelce lagði skóna á hilluna eftir síðasta NFL-tímabil en í nýjasta hlaðvarpsþætti þeirra Kelce bræðra kom fram að hann hefur týnt verðmætasta minningargripnum sínum frá ferlinum.

Kelce varð NFL-meistari með Philadelphia Eagles í febrúar 2018 og allir leikmenn sem vinna Super Bowl fá veglegan hring að gjöf.

Jason sagði frá örlögum hringsins síns í New Heights hlaðvarpsþættinum þar sem hann fer yfir málin með yngri bróður sínum Travis Kelce sem spilar með Kansas City Chiefs.

„Super Bowl hringurinn minn er týndur,“ sagði Jason Kelce. Sagan er sú að hann lánaði hringinn sinn í grínkeppni sem bar nafnið „Jason Lost His Ring“ eða „Jason týndi hringnum sínum“. Hún var búinn til af því að Jason var í alvörunni þekktur fyrir að vita ekki oft hvar Super Bowl hringur sinn væri niðurkominn.

Í keppninni kepptust lið við að finna hringinn hans sem var falinn í tveimur laugum fullum af chili nautahakki. Kelce sýndi myndband af keppninni og tók það fram að það lýsi því ekki hversu ógeðslegt þetta var.

„Ég veit ekki hvort að Travis viti af þessu en ég bókstaflega týndi hringnum þarna því það fann hann enginn,“ sagði Jason, Fólk notaði meðal annars málmleitartæki til að finna hringinn en án árangurs.

„Við höfum ekki fundið hann enn. Það er búið að henda öllu draslinu þannig að ég get fullyrt það að Super Bowl hringurinn minn er nú í einhverri landfyllingu á Cincinnati svæðinu,“ sagði Jason.

Jason bjóst aldrei við að fá ekki hringinn sinn aftur og segist vera búinn að athuga það hvort hann sé tryggður fyrir þessu. Hringurinn er auðvitað verðmætur ekki aðeins í peningum talið heldur einnig hefur hann mikið tilfinningalegt gildi enda sá eini sem Jason vann á löngum ferli sínum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×