Viðskipti innlent

Segir frum­varp um húsaleigulög geta leitt til hærra leiguverðs

Árni Sæberg skrifar
Hildur Ýr er varaformaður Húseigendafélagsins.
Hildur Ýr er varaformaður Húseigendafélagsins.

Hæstaréttarlögmaður segir frumvarp um húsaleigulög, sem ætlað er auka réttarvernd og húsnæðisöryggi leigjenda, geta leitt til þess að húseigendur vilji síður leigja út eignir sínar. Þannig myndi framboð minnka og leiguverð hækka.

Hildur Ýr Viðarsdóttir hæstaréttarlögmaður og varaformaður Húseigendafélagsins ritar aðsenda grein hér á Vísi þar sem hún útskýrir hvað felst í frumvarpi innviðaráðherra um húsaleigulög, sem er nú í umsagnarferli.

„Þó maður sé að lesa texta alla daga þá þurfti ég aðeins að liggja yfir þessu, til þess að sjá hvað þetta þýðir. Þess vegna ákvað ég að taka þetta saman á mannamáli, hvað þessar breytingar þýða,“ segir Hildur Ýr í samtali við Vísi.

Meðal þess sem felst í frumvarpinu er að leigusala verði gert að skrá leigusamninga hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ekki verði lengur heimilt að tengja leiguverð við vísitölu í tímabundnum leigusamningum og að aðilar að leigusamningi geti að tólf mánuðum liðnum farið fram á leiðréttingu leigufjárhæðar í samræmi við markaðsverð. Nái aðilar ekki saman falli það í skaut Kæruefndar húsamála að ákveða leiguverðið.

„Mér finnst verið að ganga langt og leggja miklar skyldur á herðar leigusölum. Það eru gerðar kröfur um að það eigi að skrá leigusamninga og ef það gleymist þá varðar það sektum. Mér finnst mjög sérstakt að það eigi að skrá einkaréttarlega samninga. Svo er náttúrulega verið að skerða samningsfrelsið töluvert,“ segir Hildur Ýr.

Hætta á að einstaklingar hætti leigusölu

Húseigendafélagið hefur skilað inn ítarlegri umsögn um frumvarpið þar sem gerð er grein fyrir verulegum áhyggjum félagsins og alvarlegum athugasemdum við frumvarpið. Hildur Ýr segir félagið alls ekki leggjast gegn markmiði frumvarpsins um aukið húsnæðisöryggi.

„En hættan er sú, af því að 65 prósent af leigumarkaðnum eru eignir sem Jón og Gunna úti í bæ eru að leigja, að Jón og Gunna nenni því ekki lengur. Ákveði að kaupa hlutbréf fyrir peninginn eða nota húsnæðið fyrir skammtímaleigu. Hættan er að þetta dragi úr framboði leiguhúsnæðis. Það mun gera stöðu leigjenda verri. Þannig gengur frumvarpið í raun gegn tilgangi sínum.“

Kærunefndin sprungin

Sem áður segir gerir frumvarpið meðal annars ráð fyrir því að hægt verði að skjóta ágreiningi um hvað teljist sanngjörn leiga til Kærunefndar húsamála, þegar tólf mánuðir eru liðnir frá gildistöku leigusamnings. 

„Kærunefnd húsamála fjallar um ágreining vegna húsaleigu og ég veit að hún er að drukkna eins og staðan er núna. Og hvað þá þegar það á að leggja á þessa nefnd að ákveða hvað er rétt leiguverð,“ segir Hildur Ýr.

Kærunefnd húsamála hefur einnig skilað inn umsögn um frumvarpið þar sem segir að verulegur málahali hafi safnast upp hjá nefndinni og því komi verulega á óvart að til standi að auka álagið á nefndinni.

Núgildandi lög virki vel

Í umsögn Húseigendafélagsins segir að nú sé talað hátt á torgum um að nauðsynlegt sé að bæta réttarstöðu leigjenda og að nauðsynlegt sé að breyta húsaleigulögunum í því skyni. 

„Núgildandi húsaleigulög virka þvert á móti vel og standa ekki á nokkurn hátt leiguviðskiptum fyrir þrifum. Þau eru eða voru öllu heldur í það heila sanngjörn í garð beggja samningsaðila. Hagsmunir leigjenda eru vel varðir og leiguréttur þeirra er mjög ríkur. Engum verður hent út fyrirvaralaust og geðþóttahækkun húsaleigu á sér ekki lagastoð,“ segir í umsögninni.

Hildur Ýr segir að jafnvægi verði að vera á leigumarkaði, það sé best fyrir alla. Ef of mikið sé þrengt að leigusölum vilji þeir ekki leigja eignir sínar.

„Þá er minna framboð og það bitnar líka á leigutökum. Þó að markmiðið sé göfugt með þessu frumvarpi þá held ég að það sé of langt gengið þarna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×