Upp­gjör, við­töl og myndir: Álfta­nes - Kefla­vík 77-56 | Ný­liðarnir jöfnuðu metin í ein­víginu

Siggeir Ævarsson skrifar
Haukur Helgi átti góðan leik í kvöld.
Haukur Helgi átti góðan leik í kvöld. Vísir/Vilhelm

Álftnesingar léku sinn allra fyrsta heimaleik í úrslitakeppni efstu deildar karla í körfubolta í kvöld og voru greinilega mættir til að selja sig dýrt og verja heimavöllinn en Keflvíkingar skoruðu aðeins sex stig í fyrsta leikhluta.

Staðan 17-6 eftir fyrsta leikhluta og það eina sem bjargaði Keflvíkingum fyrir horn var sú staðreynd að heimamenn voru að hitta afar illa fyrir utan þriggja stiga línuna. Það leit út fyrir að Álftnesingar ætluðu jafnvel að gera út um leikinn strax í 2. leikhluta en þá tóku gestirnir loks við sér.

HAFNAÐ! Douglas Wilson sendir skottilraun frá Igor Maric lengst upp í stúkuVísir/Vilhelm

Keflvíkingar létu dómgæsluna fara mikið í taugarnar á sér í byrjun en eftir því sem leið á hálfleikinn virtist tuð þeirra mögulega hafa einhver áhrif þar sem þeir fengu nokkrar ansi ódýrar villur. Staðan 37-29 í hálfleik og allt galopið í leik sem leit út fyrir að verða algjör einstefna í byrjun.

Boðið var upp á mikinn barning og hnoð í seinni hálfleik, sem hentar Álftnesingum töluvert betur en Keflvíkingum sem vilja spila hratt. Keflvíkingar voru nálægt því að loka bilinu en þriggja stiga sókn frá Dúa í lok 3. leikhluta þýddi að munurinn hélst sá sami, staðan 55-47 fyrir lokaátökin.

Dúi Þór Jónsson fær óblíðar móttökur frá Sigurði PéturssyniVísir/Vilhelm

Ef leikurinn var hægur og lítið skorað í upphafi þá veit ég ekki hvað er hægt að segja um 4. leikhluta en aðeins voru komin þrjú stig á töfluna eftir þriggja mínútna leik, öll frá heimamönnum. Þessi hraði á leiknum hentar Álftnesingum auðvitað fullkomlega og þeir náðu smám saman að auka muninn. Haukur Helgi kom þessu í 20 stig þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka og þá var þetta í höfn.

Lokatölur 77-56 og staðan orðin jöfn í einvíginu, 1-1.

Atvik leiksins

Allur fyrsti leikhluti Keflavíkur fær þetta sæti. Liðið skoraði aðeins sex stig og þau hefðu ekki orðið nema fjögur ef Remy Martin hefði ekki komist á vítalínuna í blálokin. Heimamenn náðu nánast að gera út um leikinn þarna á fyrstu tíu mínútunum.

Stjörnur og skúrkar

Haukur Helgi Pálsson var skærasta stjarna kvöldsins. Dró vagninn nánast einn síns liðs sóknarlega til að byrja með og endaði með 17 stig, ellefu fráköst, fimm stoðsendingar, þrjá stolna bolta og eitt varið skot. Dino Stipcic kemst einnig í þennan flokk með 14 stig af bekknum og sýndi nokkra mjög lipra takta á mikilvægum augnablikum.

Dino Stipcic átti góða innkomu af bekknum í kvöld, 14 stig og sex fráköstVísir/Vilhelm
Norbertas Giga lét Keflvíkinga finna rækilega fyrir sér, 14 stig og sjö fráköst frá honumVísir/Vilhelm

Mögulega mætti setja alla leikmenn Keflavíkur í skúrkaflokkinn. Remy Martin sá eini með lífsmarki en skaut boltanum ekki vel. Jaka Brodnik safnaði fimm villum og einni aulalegri tæknivillu og Sigurður Pétursson náði sér aldrei á strik. Allir helstu hestar Keflvíkinga haltir í kvöld. Vonandi þarf samt ekki að skjóta þá.

Sigurður Pétursson reynir að sækja á körfuna. Aðeins fimm stig frá honum í kvöldVísir/Vilhelm

Dómarar

Þetta var ekki vel dæmdur leikur að mati blaðamanns. Davíð Tómas Tómasson, Birgir Örn Hjörvarsson og Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson drógu mjög óskýra línu og áhorfendur trylltust regulega úr pirringi. Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, var ekki sammála því að línan hefði verið óskýr og vildi meina að Álftnesingar hefðu komist upp með mikla hörku en að sama skapi voru nokkrir ansi mjúkir dómar sem féllu Keflvíkingum í vil. 

Falleinkunn á frammistöðu dómaranna í kvöld.

Danero Thomas átti því miður stutta innkomu í kvöld, lék aðeins rúma mínútu og kom ekki aftur inn á. Hinn frábæri sjúkraþjálfari Keflavíkur, Anna Pála Magnúsdóttir stumrar hér yfir honum.Vísir/Vilhelm

Stemming og umgjörð

Það var rífandi stemming í Forsetahöllinni í kvöld þrátt fyrir að það hafi ekki verið 100 prósent uppselt og forsetinn ekki látið sjá sig. 2 Guys mættu með vagninn fyrir leik og stuðningsmenn voru búnir að taka góða æfingu í gær sem heyrðist vel í kvöld en í hvert sinn sem Keflvíkingar gáfu frá sér hljóð var allt vitlaust hinum megin í stúkunni og gestirnir algjörlega yfirgnæfðir.

Álftnesingar geta verið stoltir af umgjörðinni í sínum fyrsta heimaleik í úrslitakeppninni.

Ungir stuðningsmenn Álftnesinga létu vel í sér heyra í kvöldVísir/Vilhelm

Viðtöl

Haukur Helgi: „Við þurfum bara að vera hugrakkir og töffarar“

Haukur Helgi sækir að körfunni meðan að Hörður Axel býr til pláss fyrir hannVísir/Vilhelm

Haukur Helgi Pálsson kom haltrandi í viðtal eftir leik en var þar fyrir utan nokkuð brattur. Það var hart tekist á í kvöld og það sást á honum.

„Algjörlega og þetta verður bara svona. Þeir eru hraðir og vilja hleypa þessu upp. Við viljum svolítið standa fyrir og láta finna fyrir okkur. Mér fannst við gera það í dag og héldum því leikplani sem við lögðum upp með.“

Haukur hafði ekki áhyggjur af því að lið Álftaness myndi eiga í vandræðum með að fylgja þessari frammistöðu eftir.

„Núna ætla ég bara að jafna mig og gera mig tilbúinn í næstu baráttu! Við vitum hvað við þurfum að gera. Fækka töpuðum boltum, taka fráköst og skora í körfuna, þá fá þeir ekki að hlaupa í bakið á okkur. 56 frá þeim er bara frábært. Svona lið erum við. Við viljum spila vörn og spila „smart“.“

Nú liggur leiðin suður með sjó á ný og Haukur er klár í slaginn.

„Þetta er hörkulið og við vitum að við þurfum að mæta til leiks til að sækja sigur. Keflavík er búið að sýna það að þetta er með betri liðum í deildinni. Við þurfum bara að vera hugrakkir og töffarar. Út með kassann og láta finna fyrir okkur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira