Handbolti

Fram fagnaði feykisterkum sigri gegn ÍBV

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Framkonur fögnuðu sigri á heimavelli
Framkonur fögnuðu sigri á heimavelli vísir / hulda margrét

Fram vann örugglega, 31-22, þegar ÍBV heimsótti þær í fyrsta leik 13. umferðar Olís deildar kvenna. Liðin sitja í 3. og 4. Sæti deildarinnar með 18 og 14 stig.

Bæði lið höfðu unnið síðustu tvo leiki eftir að deildin hófst að nýju eftir langt hlé vegna HM og jólahátíða. Síðasti tapleikur beggja liða var gegn Val fyrir áramót. 

ÍBV byrjaði leikinn frábærlega og komst í 6-2 á upphafsmínútunum. Þá tók heimaliðið við sér og skoraði 12 mörk gegn aðeins 2 frá ÍBV, hálfleikstölur 14-8. Alfa Brá Hagalín var fremst meðal jafningja í fyrri hálfleik hjá Fram, skoraði 5 mörk, fiskaði víti og gaf tvær stoðsendingar.

ÍBV tókst aldrei að minnka muninn almennilega í seinni hálfleik, Framarar héldu þeim í skefjum með sterkum varnarleik og misstu forystuna ekki frá sér. Þær gáfu svo enn frekar í á lokamínútum leiksins og sigldu sigrinum örugglega heim.

Alfa Brá leiddi markaskorun Fram með 8 mörk, Þórey Rósa skoraði 7, þar eftir voru svo Erna Guðlaug og Íris Anna með 4 mörk hver. Elísa Elíasdóttir stóð upp úr í liði ÍBV með 7 mörk úr jafnmörgum skotum.

Næsta umferð ætti að verða öllu auðveldari fyrir bæði lið, Fram mætir Þór/KA og ÍBV mætir Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×