Sport

„Vorum orðnar bensínlausar síðustu tíu mínúturnar“

Andri Már Eggertsson skrifar
Einar Jónsson, þjálfari Fram, var svekktur eftir leik
Einar Jónsson, þjálfari Fram, var svekktur eftir leik Vísir/Hulda Margrét

Fram tapaði gegn Val 21-25. Einar Jónsson, þjálfari Fram, var afar svekktur með síðustu tólf mínúturnar þar sem Fram skoraði aðeins eitt mark. 

„Við vorum orðnar bensínlausar síðustu tíu mínúturnar. Við vorum að klikka á dauðafærum sem var dýrt. Það er svona sem ég get sagt strax eftir leik. Við vorum orðnar aðeins þreyttari en þær í lokin,“ sagði Einar Jónsson í samtali við Vísi eftir leik.

Fram var marki yfir í hálfleik 12-11. Einar var ánægður með fyrri hálfleikinn og hefði viljað vera meira en aðeins einu marki yfir í hálfleik.

„Mér fannst við miklu betri í fyrri hálfleik og við áttum að vera 4-5 mörkum yfir í hálfleik en vorum að skjóta mjög illa og ég veit ekki hvað við klikkuðum á mörgum dauðafærum. Ég hefði viljað vera meira en einu marki yfir í hálfleik.“

„Mér fannst þetta snúast á síðustu tíu mínútunum. Þær sýndu styrkleikamerki undir lokin á meðan það vantaði bensín á tankinn hjá okkur.“

Fram komst yfir um miðjan seinni hálfleik 18-17 og eftir það fóru heimakonur að gefa eftir og Valur gekk á lagið.

„Mér fannst Thea [Imani Sturludóttir] skora nokkur góð mörk sem var mikilvægt þar sem bæði lið voru í vandræðum með að skapa sér góð færi en það sem Valur hafði fram yfir okkur var að þær skoruðu nokkur mörk úr hraðaupphlaupum og síðan fengu þær neglur á tíu metrunum frá Theu.“

„Okkur vantaði smá aukalega frá einhverjum undir lokin hvort sem það átti að vera varðir boltar eða mörk til þess að leysa hnútinn. Mér fannst allt annað að sjá okkur í kvöld heldur en undanfarið sem var það jákvæða við leikinn,“ sagði Einar Jónsson að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×