Handbolti

Dreymir um að komast aftur á völlinn: „Það sem ég er best í“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dreymir um að spila handbolta á nýjan leik.
Dreymir um að spila handbolta á nýjan leik. Vísir/Hulda Margrét

Ragnheiður Júlíusdóttir, leikmaður Fram í Olís deild kvenna og íslenska landsliðsins, hefur ekki spilað handbolta undanfarna 16 mánuði eftir að hafa fengið kórónuveiruna. Hún segist nú loks finna fyrir batamerkjum og lætur sig dreyma um að spila handbolta á nýjan leik.

Frá þessu er greint í Íþróttavarpi RÚV sem er vikulegt hlaðvarp að er aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum Ríkisútvarpsins. Í viðtalinu fer Ragnheiður yfir þá þrautagöngu sem hún hefur gengið undanfarna 16 mánuði og hvernig það er að geta ekki iðkað íþróttina sem hún elskar.

Ragnheiður hefur ekki spilað síðan 29. janúar á síðasta ári. Hún hefur lengi vel glímt við POTS, postural orthostatic tachycardia syndrome. Um er að ræða heilkenni sem orsakar að hjartsláttartíðnin eykst við að standa upp eða setjast. Það hafði ekki háð Ragnheiði of mikið, það er þangað til hún fékk kórónuveiruna.

„Ég hafði glímt við veikindi og fékk síðan covid ofan í það,“ sagði Ragnheiður í samtali við Vísi þann 23. febrúar 2022. Síðan þá hefur hún ekki spilað né æft. Hún „hefur ekki fengið staðfest að covid sé ástæða þess að einkennin mögnuðust svona upp en rannsóknir hjá læknum hafa komið eðlilega út,“ segir í frétt RÚV.

Ragnheiður segir í viðtalinu að það hafi verið erfiðast að horfa á liðsfélagana spila. Hún hafi grátið mest yfir leikjum Fram. Þá hafði allt áreitið sem fylgir því að mæta á handboltaleik haft áhrif á hana.

Í viðtalinu segist Ragnheiður „bara taka einn dag í einu og hefur ekki sett sér nein langtímamarkmið. Hún hefur ekki getað unnið, stundað nám eða handbolta.“

Það virðist þó vera ljós við enda ganganna. Hún segir að undanfarnar tvær til þrjár vikur hafi henni liðið ágætlega og var það ein helsta ástæða þess að hún gaf RÚV viðtal. Þrátt fyrir að hún taki engu sem gefnu og hafi lært af gefinni reynslu að það sé erfitt að segja til um framtíðina þá leyfir Ragnheiður sér að dreyma um að spila handbolta á nýjan leik.

„Draumurinn minn númer eitt er að spila aftur, þetta er bara mitt passion og það sem mér finnst ég eiga að gera í lífinu. Þetta er það það sem ég er best í,“ segir að endingu í viðtalinu sem má í heild sinni finna á vef RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×