Handbolti

Lovísa aftur í Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lovísa Thompson klæðist Valstreyjunni á ný á næsta tímabili.
Lovísa Thompson klæðist Valstreyjunni á ný á næsta tímabili. vísir/hulda margrét

Eins og við var búist hefur Lovísa Thompson samið á ný við Íslandsmeistara Vals í handbolta. Hún skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.

Lovísa gekk í raðir Ringköping í Danmörku síðasta sumar en stoppaði stutt við þar. Ekkert varð svo af félagaskiptum hennar til norska liðsins Tertnes vegna meiðsla á hásin.

Í tilkynningu Vals segir að Lovísa hafi gengist undir aðgerð á hásin og verði klár í æfingar í byrjun ágúst.

Lovísa styrkir Íslandsmeistarana gríðarlega enda einn besti leikmaður landsins undanfarin ár.

Hún hóf ferilinn með Gróttu og vann þrennuna með liðinu 2015 og Íslandsmeistaratitilinn árið eftir. Lovísa fór í Val 2018 og varð þrefaldur meistari með liðinu á fyrsta tímabili sínu þar. Hún varð svo bikarmeistari með Val í fyrra.

Valur varð Íslandsmeistari um síðustu helgi eftir sigur á ÍBV í Eyjum. Valskonur unnu alla þrjá leikina í úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×