Jól

Þannig voru jólin 1959

Elín Albertsdóttir skrifar
Hlín og Alma sjá um að skreyta og fræða börnin um jólin fyrir sextíu árum.
Hlín og Alma sjá um að skreyta og fræða börnin um jólin fyrir sextíu árum. Anton Brink
Það er löng hefð fyrir því að heimsækja Árbæjar- safn um jól bæði hjá skólum og fjölskyldum. Dagskráin snýst að miklu leyti um "jólin í gamla daga“ og þetta árið er horft til jóla fyrir sextíu árum.

Jólin 1959, ljósmyndarinn Gunnar Rúnar Ólafsson og Þórdís Bjarnadóttir og börn þeirra Gunnar, Ólafía og Ólafur. Líklega tekið á heimili þeirra við Arnarnesvog í Garðabæ. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Það hefur tíðkast að setja upp litlar sýningar í safninu sem tengjast jólum en núna er unnið með eitt ártal, það er árið 1959. Alma Dís Kristinsdóttir, menntunar- og safnafræðingur, er verkefnastjóri fræðslu og Hlín Gylfadóttir er sérfræðingur fræðslu og viðburða. Þær segja að það hafi verið tilvalið að velja tímabil sem er ekki mjög fjarlægt í tíma til að ýta undir samtal á milli kynslóða. Þetta er fræðslusýning og hugguleg jólaheimsókn fyrir 5. - 7. bekk þar sem einblínt er á aðfangadagskvöld 1959 og rætt um jólahald og jólahefðir fyrir 60 árum. „Krakkar sem voru 10 ára fyrir 60 árum eru nú um sjötugt og við spyrjum krakkana oft hvort þau þekki einhvern á þeim aldri og hvetjum þau til að spyrja viðkomandi út í hvernig jólunum var háttað hjá þeim þegar þau voru krakkar. 

Fallega skreytt jólaborð í anda liðins tíma.
Í fræðslunni rekjum við okkur í gegnum aðfangadag með samanburði á jólasiðum í dag og fyrir sextíu árum. Við hefjum samtalið á spurningu um hvort jólin séu haldin hátíðleg heima hjá þeim og berum saman við reykvískt samfélag 1959 þegar nánast allir héldu jól. Við leyfum krökkunum að skreyta jólatré saman og setja pakka undir það. Hápunktur heimsóknarinnar er að fá að kíkja í jólapakkana og sjá hvernig jólagjafir tíðkuðust fyrir 60 árum,“ útskýra þær og bæta við að það það skemmtilega við jólasiði sé að sumt hefur breyst á meðan annað hefur algjörlega staðið í stað. Íslenskt samfélag er fjölbreyttara í dag en áður og jólasiðir ólíkir eftir þeirri menningu sem ríkir á hverju heimili. Að fá rauð epli og appelsínur aðeins á jólum er dálítið sérstakt nú þegar við getum valið um margar tegundir af eplum í matvörubúðinni dag hvern.“

Sparistellið er borið á borð með kræsingunum.
Þegar Hlín og Alma eru spurðar hvað sé frábrugðið í jólasiðum þessara tveggja tíma, svara þær: „Kannski er helsti munurinn að krakkar þurftu að finna sér ýmislegt til dundurs á meðan beðið var eftir jólum þegar ekkert sjónvarp var á boðstólum, hvað þá net. Við veltum því fyrir okkur hvernig það var að þurfa að bíða eftir jólunum. Það var ein útvarpsstöð og þar var verið að spila klassíska tónlist og lesa jólakveðjur. Við spilum einmitt þá tónlist á meðan á heimsókn stendur. Við sýnum krökkunum gripi eins og gosflöskur, konfektkassa og kökubox. Konfektkassarnir eru töluvert minni en þeir eru í dag á meðan smákökubaksturinn var umsvifameiri. Við ræðum aðeins skífusíma sem krökkum í dag finnst mjög áhugaverður, að þurfa að standa eða sitja á sama stað á meðan talað er í síma. Krakkar fengu stundum það embætti að bera út jólakort í hverfið meðan beðið var eftir jólunum, nú eru kveðjur kannski sendar rafrænt.“

Jólin 1959, Lóa Dís (Ólafía Þórdís Gunnarsdóttir) dóttir ljósmyndarans. Ljósmyndari: Gunnar Rúnar Ólafsson (1917-1965). Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Opið er virka daga eftir að fræðslu lýkur kl. 14-17 og kl. 13-17 um helgar. Síðan verður sérstök jóladagskrá 15. og 22. desember og þá verður sýningin líka opin.






×