Sport

Kemur ekkert annað til greina en að vinna Snæfell í dag

Herbert Arnarson þjálfari KR segir það alls ekki hafa verið áfall að tapa heimaleiknum gegn Snæfelli í vikunni í 8 liða úrslitum í úrslitakeppni körfubolta karla, Iceland Express deildinni. Vísir.is náði tali af Herberti nú rétt í þessu þar sem lið KR var statt í Hyrnunni í Borgarnesi á leið sinni upp í Stykkishólm þar sem annar leikur liðanna fer fram í dag.

Snæfellingar komu á óvart á fimmtudagskvöld þegar þeir lögðu KR í Vesturbænum, 68-71 og geta með sigri í dag slegið komist í undanúrslit en leikurinn hefst kl. 16:00.

"Við vissum vel að Snæfellingar væru erfiðir og þetta gat farið á hvaða veg sem var þó við værum á heimavelli gegn þeim. En við höfum leikið tvisvar við þá í Stykkishólmi í vetur og unnum annan leikinn þannig að við vitum vel að við getum tekið þá þarna. Við þurfum bara að færa okkur yfir á plan "B" í dag fyrst plan "A" klikkaði á fimmtudag og erum staðráðnir í að vinna þá í dag. Það kemur einfaldlega ekkert annað til greina." sagði Herbert við Vísi nú rétt áðan þar sem hann var nýbúinn að fá sér súpu og pasta með strákunum í Borgarnesi.

Leikurinn hefst kl. 16 en á sama tíma fer fram annar leikur Fjölnis og Keflavíkur. Keflavík vann fyrsta leikinn örugglega í Keflavík og geta með sigri í dag komist áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×